Utanlandsferðir barna
9. maí 2025
Vissir þú!... að barn undir 18 ára aldri má ekki ferðast milli landa nema með samþykki beggja forsjáraðila – jafnvel þó það ferðist með öðru foreldrinu?

Hvers vegna skiptir þetta máli?
Landamæraeftirlit víða getur krafist sannanlegra gagna um samþykki beggja forsjáraðila. Ef slíkt vottorð vantar getur barn verið stöðvað, tafist eða meinað að fara yfir landamæri.
Gildir þetta líka um gifta foreldra sem búa saman?
Já! Foreldri með sameiginlega forsjá má ekki fara með barn úr landi án samþykkis hins, sama hvernig sambúð þeirra er háttað. Komi upp ágreiningur má óska eftir úrskurði sýslumanns. Foreldrar sem hafa samið um skipta búsetu barns geta þó ekki óskað úrskurðar sýslumanns um utanlandsferð.
Hvernig sanna ég samþykki?
Við mælum með:
Skriflegu samþykki, undirrituðu af báðum forsjáraðilum
Forsjárvottorði, ef aðeins annað foreldri fer með forsjá
Lögbókandavottun ef ferðast er utan EES
Þegar barn ferðast með öðrum en foreldrum
Ef barnið er að ferðast með ömmu, afa, kennara eða íþróttafélagi, þá þarf samþykki forsjáraðila einnig að liggja fyrir. Flugfélög bjóða oft fylgdarþjónustu fyrir börn sem ferðast ein – kynntu þér reglur þeirra vel.
Hvað þarf meira að hafa í lagi?
Gilt vegabréf, öll börn þurfa eigið vegabréf - líka nýfædd börn.
Gildistími, flest EES-ríki krefjast að vegabréfið gildi í a.m.k. 3 mánuði umfram dvöl, en mörg ríki utan EES krefjast 6 mánaða eða lengri gildistíma.
Vegabréfsáritun, sum lönd krefjast áritunar – líka í tilfellum þar sem aðeins er millilending, t.d. í Bretlandi. Kynntu þér reglur viðkomandi lands tímanlega.
Ef vegabréf týnist eða er stolið erlendis þarf að tilkynna það á Ísland.is.
Neyðarvegabréf, ef brýna nauðsyn ber að höndum er hægt að sækja um neyðarvegabréf.
Vertu tímanlega!
Þú getur sótt um nýtt vegabréf fyrir þig og einstaklinga í þinni forsjá á vef sýslumanna. Í umsókninni forskráir þú upplýsingar og þarft svo aðeins að mæta í myndatöku hjá embætti sýslumanna innan 30 daga til að hægt sé að gefa út vegabréfið.